fimmtudagur, 19. desember 2013

Jólaundirbúningur

Jólaundirbúningurinn hefur heldur betur verið óvenjulegur í ár. Enginn bakstur = engar smákökur, engir jólatónleikar, enginn snjór. Hér hefur hitinn verið í kringum 20° á daginn, en mjög kalt á nóttunni og morgnanna. Hér hefur ekki rignt í marga daga eða vikur, og stjörnubjart á hverju kvöldi sem er æðislegt. Hér eru húsin voða lítið skreytt miðað við heima, ég er ekkert með í herberginu mínu og það er voða lítið í húsinu sjálfu, og ekkert jólatré! 


Eina jólaskrautið á heimilinu.


Þann 7. desember fór ég í fyrsta skiptið í posada, sem er mexíkanska útgáfan af jólahlaðborði/jólaballi. Ég fór ásamt hinum sjálfboðaliðunum og starfsfólki frá Siijuve. Við borðuðum saman mexíkóskan mat, opnuðum piñata og sungum. Seinna um kvöldið fór ég með Emmu, Fabiolu og Lili til Guadalajara þar sem við fórum á tónleika ásamt Chris og Omar. Tónleikarnir voru fríir með hljómsveitinni Infected mushroom. Eftir tónleikana fórum við heim til Omars, dönsuðum og sungum til sirka 4-5 um morguninn. Skemmti mér ótrúlega vel, hef ekki sungið svona mikið síðan ég var heima, mikið sakna ég þess!

Vikan eftir það var frekar róleg, gerðum voða lítið í skólanum annað en að undirbúa jólin. Á síðasta fimmtudag fór ég til Guadalajara með fjölskyldunni um miðjan daginn. Keyrðum aðeins um, Coni fór til læknis og svo fóru þau í mollið og ég heim til Chris. Var hjá honum framá laugardag og fór þá heim með fjölskyldunni sem hafði aftur komið til Guadalajara. Á sunnudaginn fór ég í heimsókn til langömmu og langafa Chris í smá stund og eftir það á einhverskonar búgarð með Emmu, Fabiolu og vinkonum þeirra úr fótboltanum. Þar vorum við fram á kvöld. 

Þessi vika hefur verið rosalega skemmtileg. Chris var hérna frá sunnudegi þangað til um miðjan dag í gær. Svo hefur verið nóg að gera í vinnunni, sérstaklega á morgnanna. Á mánudagsmorguninn vorum við með einhverskonar general prufu fyrir næstu 2 daga. Á þriðjudagsmorguninn voru börnin mín með tónleika. Hver bekkur söng lag sem þau voru búin að æfa, hver bekkur klæddur í stíl, voða krúttlegt. 




Eftir vinnu á þriðjudagsmorgun fór ég með kennurunum mínum og starfsfólki skólans út að borða, fékk þar smá jólapakka og átti góða stund með þeim. Á miðvikudagsmorguninn var "pastorela" í skólanum, leikrit um sögu jólanna. Þar voru öll börnin með sitt hlutverk, klædd í búninga, rosa sæt. 



Í morgun var svo "posada" skólans sem er eins og ég lýsti hér fyrir ofan. Einnig vorum við með posada seinni partinn. Ég fékk gjöf frá mömmu Emily sem er stelpan í mínum bekk með Downs. Fékk rosa fallega eyrnalokka. 






Nú er ég loksins komin í jólafrí, mikið er það gott. Á eftir að sakna barnanna minna í fríinu en það er meira en nóg að gera framundan. Um helgina stefni ég að því að fara til León að hitta íslenskan vin ásamt Emmu. Verð hér á aðfangadag og jóladag með Chris og hans fjölskyldu. Annan í jólum förum við sennilega til Manzanillo í 2 daga og svo til Californiu. Tilhlökkunin fyrir næstu dögum/vikum er alveg í hámarki, svo margt skemmtilegt að gerast. 

Í gær föndraði ég við smá jólakveðju og langar að deila henni með ykkur hér þar sem ég á ekki von á að blogga meira fram að næsta ári. Hér er linkur á videoið:


Gleðileg jól elsku fjölskylda og vinir <3

þriðjudagur, 3. desember 2013

Puerto Vallerta

Þá er ég komin heim eftir bestu helgina síðan ég kom hingað. Á fimmtudaginn eftir vinnu fór ég til Guadalajara til Chris. Hann þurfti að keppa útileik á föstudaginn svo ég var bara heima, fór í Wal Mart og keypti jólaskraut og skreytti húsið aðeins. Svo fór ég í Gallerias, sem er risa stórt moll svona 30 mín í strætó frá húsinu hans. Þar er ný búið að opna bæði Forever 21 og H&M þannig ég gat eytt góðum tíma þar. Á leiðinni heim týndist ég, strætóinn skildi mig eftir á hraðbrautinni bara ekki á réttum stað og sagði mér að fara í vitlausa átt. Var týnd í svona hálftíma kannski en komst svo loksins heim! Ég vissi allan tímann sirka hvar ég væri, ég var bara komin nokkrum götum of langt, og fór svo lengra í burtu. En sem betur fer reddaðist allt :)




Á laugardagsmorguninn vöknuðum við rétt fyrir klukkan 6 og vorum komin á strætó stöðina um 7 leytið. Strætóinn til Vallerta fór klukkan hálf 8 og tók 5 klukkutíma. Jazmin vinkona sótti okkur á stöðina og fór með okkur í bæinn. Við fórum á veitingastað á ströndinni og borðuðum rosa góðan mat. Á ströndinni er endalaust fólk að reyna að selja þér eitthvað og við Jazmin fengum okkur alveg eins tattoo sem endist í 2 vikur, okkur fannst það voða fyndið. Eftir það kíktum við á bar þar sem allir drykkir voru á svona 20-30 pesos sem eru svona 200-300kr. Spiluðum þar pool og skemmtum okkur rosa vel! Um 5 leytið tjékkuðum við okkur inn á hótelið sem var sjúklega flott. Herbergið var algjört æði og útsýnið ennþá flottara. Við kíktum í sjóinn aðeins og svo í laugina. Sjórinn var heitari en sundlaugin, sem er geggjað. Svo syntum við þar með allskonar fallegum fiskum, mér fannst það frekar óþæginlegt en á sama tíma skemmtilegt. Um kvöldið borðuðum við hlaðborð sem var rosalega gott, mikið úrval og fórum svo á club þar sem var dansað til klukkan 4 um nóttina.


Sunnudagurinn var rosalega rólegur, við Chris fórum á fætur svona hálf 11, borðuðum morgunmat og kíktum í sjóinn. Eyddum öllum deginum á ströndinni og í lauginni og borðuðum á hótelinu.
Í gær vöknuðum við eld snemma og borðuðum morgunmat. Kíktum aðeins í laugina áður en við urðum að tjékka okkur út af hótelinu. Tókum svo strætó í miðbæinn þar sem við röltum á almennings ströndina. Fundum voða fínan stað þar sem við sátum lengi. Ég keypti kókoshnetu, fyrst drakk ég vatnið innan úr henni og svo var hún skorin niður fyrir mig. Ekkert betra á ströndinni. Við fórum svo á svona bananaboat sem var sjúklega gaman, ég endaði á því að detta í sjóinn sem var samt rosa gaman, enda sjórinn svo þæginlega heitur. Við borðuðum svo áður en við tókum strætóinn aftur til Guadalajara.
Ég komst loksins alla leiðina heim klukkan 1 í nótt eftir langt ferðalag.




Helgin var alveg hreint yndisleg í alla staði, við vorum auðvitað eina unga parið á staðnum. Ekkert nema eldra fólk og sennilega svona 90% ameríkanar. Okkur fannst það frekar gaman að vera innan um svona mikla ensku. Vallerta er rosalega dýr staður miðað við Ocotlán enda týbískur túristastaður.
Ég er miklu betri í maganum enda passa ég vel uppá hvað ég borða. Kvöldinu eyddi ég með Emmu og Fabiolu í miðbænum þar sem ljósin voru kveikt á jólatrénu þar. Fullt af fólki mætti með blöðrur með óskinni þeirra fyrir jólin og um leið og ljósin voru kveikt slepptu allir blöðrunum. Var frekar magnað að sjá þetta. Þessi vika verður frekar róleg, á morgun ætla ég að byrja að lesa sögu um íslensku jólasveinana fyrir börnin mín svo ég nái öllum hópunum fyrir jólafrí. Á laugardaginn er svo jólapartý hjá Siijuve og ég hlakka mikið til.